Rasmus ehf

Blöndubakka 12

109 Reykjavík

S: 899-3698

 

 http://www.rasmus.is

Póstfang : Rasmus ehf  

Box 9238  129 Reykjavík

      

06.01.09

 

Ágrip að sögunni á bak við rasmus.is

 Stærðfræðivefurinn:

Þann 14 feb. 1999 var fyrst kynntur námsvefur á internetinu undir heitinu Stærðfræðivefur H&T. 

Markmið  Vefur þessi er byggður upp til að þjónusta þá sem vilja ná sterkari tökum á stærðfræði. Upphafleg markmið með slíkri útsetningu var að nýta umhverfi tölvunnar til þess að ná til nemenda sem sýndu lítinn áhuga á algebru. Eftir tilraunir með efnið og ábendingar frá kennurum á vormisseri 1999 var ákveðið að fjölga námsþáttum og hefur efnið vaxið jafnt og þétt síðan. Við höfum jafnan kappkostað að hafa lítinn texta og stuttar innlagnir, hverri innlögn fylgir síðan gagnvirkt próf sem gefur notandanum til kynna hversu vel hann/hún hefur meðtekið námsefnið.

Nemandinn hefur alltaf góða yfirsýn yfir námsefnið og fær aldrei of stóran skammt af upplýsingum í einu. 

Lýsing Við uppbyggingu á gagnvirku efni var til að byrja með stuðst við hugbúnaðinn "Quiz creator" sem kynntur var á slóð Íslenska menntanetins, vefurinn er að öðru leyti útsettur í Front Page og myndefni unnið með Paint Shop Pro. Efnið er miðað við þarfir nemenda í 4. til 10. bekk grunnskólans og byrjendur í framhaldsskólum. Höfundar erum við bræðurnir Húgó og Tómas Rasmus. Við höfum um árabil kennt nemendum á unglingastiginu stærðfræði. Okkur fannst tími til kominn að prófa nýjar leiðir til að nálgast þetta verkefni. Á Stærðfræðivefnum eru fjölmörg gagnvirk próf ásamt jafnmörgum kynningum eða innlögnum.

Þarfir nemenda          Þeir skólar sem hafa tekið þetta efni í notkun hafa dreift aðgangsheimildum til nemenda sinna. Nemendur geta því haft aðgang að þessu kennsluefni hvenær sem þeir óska ef þeir hafa internettengingu. Nemendur geta því reynt getu sína í stærðfræði þegar þeir eru í stuði til þess. Með þessari nálgun að kennslu í stærðfræði er ábyrgð nemandans á námi sínu virkjuð með formlegum hætti. Nemandi sem hefur lokið einstaka þætti fær staðfestingu úr gagnvirku prófi um árangur sinn. Þeir sem sannanlega ná tökum á því námsefni sem hér er kynnt ættu að standa mjög vel að vígi á samræmdu prófi í stærðfræði. Einnig geta foreldrar fylgst mjög vel með framvindu barna sinna og notað Stærðfræðivefinn sem æfingatæki til þess að átta sig á veikleikum þeirra og styrk þar sem stærðfræðivefurinn tekur á því sem næst öllum námsmarkmiðum grunnskólans í stærðfræði skv. námsskrá.  Þeir sem hafa fylgst með skólastarfi í grunnskólum landsins undanfarin ár hafa tekið eftir að á hverju ári eru um 50% nemenda við lok 10 bekkjar sem ekki ná einkuninni 5,0 á samræmdu prófi í stærðfræði, sú staðreynd gefur til kynna að nokkur þúsund nemendur eru í vandræðum með stærðfræði og sérstaklega algebru á hverjum tíma þannig að þörfin á nýjungum í kennslu á þessu sviði er brýn. Nemendur eru ekki alltaf tilbúnir að meðtaka þá fræðslu sem kennarar og skólakerfið býður uppá á hverjum tíma, því er mikilvægt að þeir hafi aðgang að nauðsynlegri fræðslu og upplýsingum þegar hvatinn til náms vaknar hjá þeim. Hver einstaklingur lærir mest þegar hann sýnir eigið frumkvæði og vilja.

Notendur     Í dag hefur meirihluta unglingastigsskóla á Íslandi aðgang að þessu kennsluefni. Einnig hafa nokkrir framhaldsskólar hér á landi tekið Stærðfræðivefinn í notkun sérstaklega fyrir nemendur í Stæ100 til og með Stæ503.  Notkun hefur orðið all veruleg og er Stærðfræðivefurinn með vinsælustu kennsluvefjum á internetinu ef skoðað er íslenskt námsefni á netinu.

Notendur koma einnig frá öðrum heimshlutum og eru rúmlega 1300 skólar áskrifendur að rasmus.is í Evrópu.

Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir aukningu innlita frá árinu 2002 til loka ársins 2008

Þessi mynd er úr tölfræðiviðmóti Modernus sem mælir notkun á rasmus.is

Áskrifendur að rasmus.is frá öðrum löndum en Íslandi eru staðsettir í: Danmörku, Svíþjóð, Grænlandi, Þýskalandi, Noregi, Finnlandi og Álandseyjum. Notendur koma hins vegar frá flestum tímabeltum jarðar.

 

Þarfir kennara            Kennarar hafa notað þetta efni á mjög mismunandi vegu, allt eftir aðstæðum í hverjum skóla. Nokkrir skólar hafa sett fast í stundaskrá notkun á Stærðfræðivefnum ásamt öðru tölvutæku efni í tölvuveri. Stærðfræði- og bekkjarkennarar hafa í samvinnu við upplýsingatæknikennara kennt nemendum notkun á vefnum. Í blönduðum hópum með ólíka getu hefur vefurinn hentað einstaklega vel því sérhver notandi getur fundið sín takmörk og unnið út frá sínum forsendum.  Kynningarefnið  sem fylgir í hverri innlögn er fellt að þeim þekkingarmarkmiðum sem unnið er með á hverjum tíma og hentar því vel til glærugerðar. Kennarar þeirra skóla sem hafa gerst áskrifendur að rasmus.is hafa síðan getað aðstoðað nemendur með annað móðurmál en íslensku á þeirra móðurmáli með því að bjóða þeim að skoða hliðstæður við íslenska efnið á því tungumáli sem nemandinn skilur. 

 

Styrkir          Þetta verkefni hefur fengið styrki frá eftirifarndi stofnunum:

Rekstrarfé fæst hins vegar aðallega frá áskrifendum því án þeirra væri ekki hægt að sinna þessu verkefni.

 

Tölvulæsivefurinn

Vegna mikillar eftirspurnar eftir námsefni á internetinu hafa aðstandendur Rasmus ehf. útbúið sérstakan tölvulæsivef sem tekur á helstu þekkingar og færnimarkmiðum grunnskólans í tölvutækni.  Jafnframt verður reynt að fullnægja þeim þekkingar og þjálfunar kröfum sem tiltekin eru í Ecdl "European computer driving license" skammstafað Tök á íslensku. Tölvulæsivefurinn hentar sérstaklega vel í skólastarfi til þess að bæta og styrkja kunnáttu og færni kennara í tölvutækni. Með nýjum kjarasamningum er ekki lengur nauðsynlegt að senda kennara á 20 tíma námskeið til þess að þeir fái námskeiðspunkta. Kennarar geta því hoppað í heimsókn á rasmus.is og æft sig í þeim atriðum tölvutækninnar sem þeim hentar á hverjum tíma. Tölvulæsivefurinn er hannaður af Tómas Rasmus sem hefur unnið helming starfsæfinnar við tölvuþjónustu í bæði stórum og litlum fyrirtækjum. Einnig er byggt á reynslu sem hefur skapast síðustu 4 árin í kennslu og námskeiðahaldi fyrir grunn og framhaldskólakennara á vegum hinna ýmsu stofnana.

 

Rasmus ehf.

Þann 17.04.2000 stofnuðum við bræður fyrirtækið Rasmus ehf.

 Auk þess að vera ættarnafn stofnandanna þá er þetta norrænt nafn sem virkar á öllum Norðurlöndunum.  Hugmyndin fæddist í jólafríi árið 1998  þegar við bræður vorum að ræða um þörfina og vandamálin sem við höfðum upplifað í starfi okkar.  Til að auka þjónustuna var stofnað lén á Netinu (slóðin er www.rasmus.is).  Síðurnar eru léttar í keyrslu þannig að notandinn þarf ekki að bíða lengi eftir svörun.  Í dag er komin heilleg mynd á íslenska hlutann og spannar íslenska efnið meginhlutann af þekkingarkröfum grunnskólans og fyrstu áfanga menntaskólans í stærðfræði. Þýðingarvinna er síðan unnin jöfnum höndum á erlend tungumál.  Stöðugt er unnið að uppfærslum og nýjungum.

Starfsmenn á launaskrá eru ca. 1 en að verkinu koma danskir, norskir og sænskir þýðendur sem eru starfandi kennarar og eru þeir verkefnaráðnir til skamms tíma í senn. Hér á landi koma að verkinu 5 starfandi kennarar allir með fjölbreytta og langa kennslureynslu á ýmsum skólastigum, í þeirra hópi eru meðal annars kennarar sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa þeir reynst mjög mikilvægir við að þýða og staðfæra efnið á önnur tungumál eins og ensku, spænsku, pólsku og rússensku. Einnig höfum við notið starfskrafta öflugra framhalds- og háskólanema með góðan árangur úr stærðfræði,  raunvísundum og tölvunarfræðum. 

06.01.2009   Tómas Rasmus.